154. löggjafarþing — 91. fundur,  22. mars 2024.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

139. mál
[11:51]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Herra forseti. Þetta er ekki alveg nýtt, þetta frumvarp til laga um breytingu á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018, fjárhagsupplýsingar um einstaklinga. Það er ekki alveg nýtt að ég standi hér og mæli fyrir þessu máli. Með mér á málinu eru aðrir þingmenn Flokks fólksins, þau Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson. Öllum kjörnum fulltrúum á Alþingi Íslendinga var boðið að gerast meðflutningsmenn okkar á þessu máli.

Frumvarpið hljóðar svo:

„1. gr. 15. gr. laganna orðast svo, ásamt fyrirsögn:

Bann við miðlun upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga.

Vinnsla upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga, þ.m.t. vanskilaskráning og gerð lánshæfismats, í því skyni að miðla þeim til annarra, er bönnuð.

2. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að frumvarpið hefur áður verið lagt fram á 151., 152. og 153. löggjafarþingi, 103. mál, og er nú lagt fram að nýju óbreytt.

Aðgangur að lánsfjármagni er grunnforsenda þess að fólk geti komið sér úr klóm fátæktar. Ef fólk nær að losna út af leigumarkaði og komast í eigin fasteign fær það loks ráðrúm til að ná upp eignamyndun. Í stað þess að greiða leigu greiðir fólk afborganir af lánum sínum sem í mörgum tilvikum eru í raun jafnvel lægri en leigugreiðslurnar sjálfar fyrir sambærilegt húsnæði. Það eiga þó ekki allir jafnan aðgang að lánsfjármagni. Neytendur þurfa að standast lánshæfis- og greiðslumat áður en lánastofnanir veita þeim lán. Greiðslumatið fer þannig fram að lagt er mat á reglulegar tekjur og fyrirhuguð útgjöld lántakanda og áætlað hver greiðslugeta hans er. Lánshæfismatið er m.a. byggt á viðskiptasögu aðila á milli eða upplýsingum úr gagnagrunnum um fjárhagsmálefni og lánstraust.

Sífellt berast fréttir af fólki sem getur ekki fengið lán frá lánastofnunum vegna niðurstöðu lánshæfismats. Margir fá synjun um fyrirgreiðslu þrátt fyrir góða greiðslugetu og án þess að lán séu í vanskilum. Fólk fær gjarnan þá skýringu að vegna þess að þriðji aðili hafi gefið því of lága einkunn geti lánastofnunin ekki veitt því lán. Slík einkunnagjöf er svokallað persónusnið. Með því er átt við sjálfvirka vinnslu persónuupplýsinga sem felst í því að nota þær til að meta ákveðna þætti er varða hagi einstaklings, einkum að greina eða spá fyrir um þætti er varða greiðslustöðu hans. Slík persónusnið eiga ekki að leiða til sjálfvirkrar ákvarðanatöku. Því mega lánastofnanir ekki hafna lánveitingu án þess að taka tillit til annarra atriða. Engu að síður hafa slík persónusnið mikið vægi við mat á lánshæfi einstaklings.

Dæmi eru um að fólk fái lága einkunn í persónusniði vegna þess að það hafi á einhverju tímabili verið á vanskilaskrá. Slíkt er lagt til grundvallar þrátt fyrir ábendingar Neytendasamtakanna um fjölda tilvika þar sem vanskil hafi verið skráð á einstaklinga vegna smálána sem kunni að vera ólögmæt. Gjarnan er það svo að eina vernd neytenda gagnvart lánveitendum er að halda eftir greiðslu telji þeir lánin ólögmæt. Þeir eiga þá á hættu að það hafi áhrif á lánstraust þeirra til frambúðar. Það hefur jafnframt sýnt sig að eitt helsta vopnið í höndum smálánafyrirtækja er að hóta neytendum um vanskilaskráningu greiði þeir ekki umdeildar kröfur. Slíkt er með öllu ótækt. Enn fremur getur það haft neikvæð áhrif á persónusnið ef viðkomandi hefur gengið í gegnum greiðsluaðlögun. Þá eru jafnvel dæmi um að það hafi áhrif á persónusnið hversu oft viðkomandi hefur verið flett upp í vanskilaskrá. Persónuvernd hefur þó úrskurðað að óheimilt sé að ljá því vægi við gerð persónusniðs. En hver ætli sé svo reyndin?

Það er með öllu ótækt að neytendur geti ekki fengið lán vegna þess að þeir hafi á einhverju tímabili verið með lán í vanskilum og eru það jafnvel ekki lengur, bara alls ekki. Á því geta verið ýmsar skýringar og hér má nefna t.d. að í efnahagshruninu haustið 2008 þá hækkuðu skuldir heimilanna allverulega. Það hafði þó ekki áhrif á greiðslugetu fólks í mörgum tilvikum. Eflaust lentu þá margir á vanskilaskrá án þess að reglulegar tekjur þeirra hefðu skerst. Í kjölfarið kom í ljós að stór hluti lánanna, gengistryggð lán, voru ólögmæt. Þá tók Alþingi þá ákvörðun að leiðrétta skuldir heimilanna nokkrum árum síðar. Íslendingar ættu því að þekkja það þjóða best að vanskil eru ekki endilega einstaklingnum að kenna. Þau ættu því ekki að elta fólk út fyrir gröf og dauða löngu eftir afskráningu áhvílandi lána.

Vinnsla á fjárhagsupplýsingum einstaklinga í því skyni að miðla þeim til annarra fellur undir lög um persónuvernd. Við skulum átta okkur á því að við erum að tala hér um lög um persónuvernd og í 15. gr. þeirra laga er fjallað um heimild til slíkrar vinnslu en þar segir að hún sé starfsleyfisskyld. Lagt er til að slík vinnsla verði bönnuð. Þannig verður girt fyrir að þriðji aðili geti haft úrslitaáhrif á möguleika neytenda til að taka lán.

Aðeins eitt fyrirtæki hefur nú leyfi til slíkrar vinnslu, Creditinfo Lánstraust hf. Verði frumvarp þetta að lögum þarf fyrirtækið að láta af þeirri starfsemi sinni sem snýr að vinnslu fjárhagsupplýsinga um einstaklinga í því skyni að miðla upplýsingum til annarra. Fyrirtækið gæti því ekki lengur miðlað upplýsingum úr vanskilaskrá eða eigin lánshæfismati. Eftir sem áður þurfa lánastofnanir að uppfylla kröfur laga um framkvæmd lánshæfis- og greiðslumats. Neytendur geta þá treyst því að lánveitandi sjálfur leggi mat á lánshæfi þeirra í stað þess að byggt sé á gögnum frá þriðja aðila.

Það er von flutningsmanna að í kjölfarið fækki þeim tilfellum þar sem neytendum er vísað á dyr vegna niðurstöðu lánshæfismats sem byggist á upplýsingum sem gefa ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu þeirra.

Það var á síðasta ári sem Creditinfo breytti forsendum sínum og útreikningum sínum til þessarar vinnslu, til þessara útreikninga um lánshæfi einstaklinga þar sem tugir þúsunda voru felldir niður um flokk. Þetta er svona eftir stafrófsröð. Ef þú ert A plús þá ertu mjög vel virtur af Creditinfo og allar líkur á því að þú getir fengið gott lánshæfismat og möguleika á því að geta komið þér upp heimili eða hverju öðru sem þér þóknast að sækja lán um.

Það sem er athyglisverðast af öllu er að persónuverndarlöggjöfin sem slík er orðin það öflug að það liggur við að maður þurfi að taka sér blóð eða jafnvel koma með tannlæknaskýrslu til þess að geta sannað deili á sjálfum sér. Ég hef aldrei almennilega áttað mig á því hvernig er hægt að ganga svona frjálslega um persónuvernd okkar hvað lýtur að fjárhagslegri stöðu og til að selja upplýsingar til þriðja aðila sem er í rauninni mjög stöndugur og sterkur á markaðnum og getur bara í viðskiptalegu tilliti sjálfur tekið ákvörðun um það hvort hann vill lána viðkomandi eða ekki. Það liggur við, herra forseti, að maður þurfi að ganga hér með vegabréfið og allar skýrslur um blóðflokkinn sinn og annað slíkt upp á vasann til að sanna deili á sér í samfélaginu. Það er sárara en tárum taki hvernig er komið fyrir þessu. Ég segi ekkert annað en að jafnvel það að einstaklingar, sérstaklega ungt fólk, við skulum segja ungt fólk sem hefur lent í klónum á smálánafyrirtækjum og jafnvel þeir sem hafa verið að glíma við fíknisjúkdóm og hafa ekki haft bolmagn til að fjármagna sína neyslu eða bara fátækir foreldrar, öryrkjar og þeir sem höllustum fæti standa í samfélaginu –— það eru þeir einstaklingar sem í rauninni freistast til þess að nýta sér þetta svokallaða smálánakerfi, sem er náttúrlega eitthvert það hrikalegasta okurkerfi sem til er. Ég hélt nú að okur væri bannað á Íslandi með lögum en einhverra hluta vegna þá hafa þessi smálán fengið að vaða uppi í samfélaginu sem eldur um akur.

Þó svo að einstaklingur sem hefur lent í klóm smálánafyrirtækjanna og lent í vanskilum og þeir hafa í rauninni náð að kreista úr honum hvern einasta blóðdropa þannig að hann er búinn að greiða upp skuldirnar og orðinn skuldlaus, þá hangir hann í snörunni hjá Creditinfo í allt að fjögur ár. Í allt að fjögur ár dinglar hann í snörunni af því að hann þarf sanna það að hann ætli ekki að stofna til frekari vanskila á næstu fjórum árum, annars fær hann ekki mat frá þeim til þess að geta fjárfest í fasteign.

Er það ekki furðulegt, herra forseti, að eitt fyrirtæki, sem er Creditinfo, skuli hafa slík og þvílík völd yfir þegnunum í landinu, yfir fólkinu í landinu? Það sé bara þeirra geðþóttaákvörðun og þeirra útreikningur sem getur ráðið því í rauninni algerlega hvort þú ert að borga 300.000 kr. fyrir íbúð á leigumarkaði eða færð að taka lán og borga 300.000 kr. af því láni og sért þá að eignast fasteignina sem þú býrð í?

Það er orðið löngu tímabært að ákveða það að þessi starfsemi, í því formi sem hér hef ég verið að tíunda, verði gjörsamlega felld niður. Það er löngu orðið tímabært að það fari saman hljóð og mynd í sambandi við persónuverndarlöggjöfina. Það vita það allir sem vita vilja og við náttúrlega sjáum það bara sjálf. Ég get tekið dæmi um fullorðinn mann sem ég þekki ágætlega en hann hefur alltaf farið í apótekið fyrir konuna sína sem er sjúklingur. Hann hefur alltaf getað farið í apótekið fyrir konuna sína og sótt fyrir hana lyfin hennar, fer alltaf í sama apótekið þar sem er sama starfsfólkið sem veit vel hver hann er. En allt í einu varð aldeilis styrkur á persónuverndarlöggjöfinni þannig að hann getur ekki lengur sótt lyfin fyrir konuna. Hann var sendur heim til að sækja skilríki og sanna deili á sér þrátt fyrir að allir vissu hver hann var, þrátt fyrir að hann hefði gert þetta árum saman af því að konan hans er sjúklingur.

Svona er persónuverndarlöggjöfin á Íslandi í dag. Við getum ekki einu sinni farið í bankann og greitt með 20.000 kr. í peningum öðruvísi heldur en að gera grein fyrir því hvar við höfum fengið þessa peninga. Skyldum við nú vera í einhverri skipulagðri glæpastarfsemi? Er einhver undirbúningur þarna og liður í peningaþvætti, herra forseti? Það er nú önnur saga. Ég ætla nú bara svona til gamans að nefna það að það virðist ekki liggja á því að greiða 28,5 milljarða kr. í reiðufé til að kaupa Tryggingamiðstöðina. En það er önnur saga, allt önnur saga. Ég vona nú að það sé ekki akkúrat þetta peningaþvætti í gangi bara með tilliti til þess að ef við berum þetta saman við okkur einstaklingana í landinu sem komum með nokkrar krónur til að borga í peningum þá er því ekki tekið fagnandi. Það eru jafnvel fyrirtæki í landinu sem eru orðin það öflug á því að þau viðurkenna ekki einu sinni íslenskan gjaldmiðil lengur og taka ekki við peningum og vilja bara kort.

Þessi persónuverndarlöggjöf hefur algjörlega snúist upp í andhverfu sína þegar kemur að Creditinfo sem getur safnað um okkur alls konar gögnum og upplýsingum, teiknað okkur upp eftir behag eftir sínu líkani eins og þeir hafa ákveðið að gera það sjálfir og segja svo, jafnvel þótt þú skuldir ekki eina einustu krónu og jafnvel þótt þú treystir þér til að borga af fasteign sem þú hefur áhuga á að kaupa: Nei, vinur minn, það er bara því miður ekki mögulegt fyrir þig. Haltu bara áfram að leigja á okurleigumarkaði vegna þess að þú færð ekki greiðslumat hjá okkur. Svo er nú bara fyndið að sjá hvers lags peningamaskína það er sjálfkrafa. Þrátt fyrir að ég kæri mig nú helst ekki um að þurfa að greiða þeim peninga fyrir greiðslumat þá gerist það um leið og maður ætlar í greiðslumat gegnum bankann sinn að maður dettur beint inn á Creditinfo. Þá er þetta bara komið þangað vegna þess að þeir ráða þínum ráðum, sjáðu til.

Herra forseti. Það er orðið löngu tímabært að við raunverulega tökum á vandanum. Mér þykir miður að það skuli enginn hafa áhuga á þessu máli hér í þingsal nema hv. þingmenn Flokks fólksins og herra forseti. Það er nú eins og það er, við erum ekkert óvön því að hafa góðan hljómburð hér í salnum og mikið bergmál af því að hann er nú venjulega tómur þegar maður er að tala fyrir sínum góðu málum. Það verður gaman að sjá hvernig þetta frumvarp fer í meðferð hv. efnahags- og viðskiptanefndar, ef ég skil það rétt, herra forseti.

(Forseti (AIJ): Forseti er með allsherjar- og menntamálanefnd hjá sér.)

Þá segi ég það bara, herra forseti kemur þessu rétta boðleið og inn í allsherjar- og menntamálanefnd, en ég hef afskaplega litlar væntingar. Allt annað væri mikið gleðiefni en ég hef afskaplega takmarkaðar væntingar til þess að þetta fari neitt annað en beint ofan í skúffu eins og flest öll mál stjórnarandstöðunnar, þar með talið samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem er búinn að hanga ofan í skúffu fastanefnda hér frá því að Flokkur fólksins kom á Alþingi Íslendinga. Enn og aftur í störfum þingsins, störfum stjórnarinnar, fer bara ekki saman hljóð og mynd. Þeir sjá í rauninni engan mun á hundi og ketti, sjá ekki mun á epli og appelsínu, þeir steypa því öllu saman, bara ef það er þeim þóknanlegt, því miður.